Um Fergusonfélagið
Fergusonfélagið var stofnað 6. desember 2007. Meginmarkmið þess var að tengja saman eigendur eldri Ferguson og Massey Ferguson dráttarvéla og stuðla að varðveislu þessara véla og fylgihluta þeirra, sögu vélanna og þýðingu í landbúnaðarsögunni. Einn helsti hvatamaður að stofnun félagsins, Ragnar Jónasson, hafði í rúmt ár haldið úti heimasíðunni “Ferguson-felagid.tk” til að undirbúa jarðveginn fyrir stofnun félagsins.
Í fyrstu stjórn Fergusonfélagsins sátu Guðmundur Gíslason formaður, Jón Ingimundur Jónsson ritari og Haukur Júlíusson. Jón Ingimundur hefur verið í stjórninni allar götur síðan og er formaður félagsins núna. Magnús Matthíasson tók við af Guðmundi sem formaður og Sigurður Skarphéðinsson við gjaldkerastöðunni af Hauki. Enn síðar kom Þór Marteinsson inn í stjórnina þegar Magnús hvarf á braut. Þeir Sigurður og Þór báðir verið formenn og gjaldkerar í Fergusonfélaginu.
Í fyrstu voru félagsfundir haldnir í Iðnskólnum en í formannstíð Magnúsar færðust þeir í kaffistofuna hjá EFLU upp í Höfðabakka 9 og hafa verið þar síðan.
Nú er sú festa í félagsstarfinu að farið er í haustferð og síðan haldnir tveir almennir félagsfundir fyrir áramót.
Aðalfundur er haldinn í febrúar og svo tveir almennir fundir í mars og apríl.
Vetrarastarfinu lýkur með vorheimsókn í Fornvélasetrið í Blikastaðafjósinu en þar eru nokkrir menn að vinna að endurgerð gamalla dráttaravéla.
Fyrsta haustferðin var að Hvanneyri og á bílasafnið í Borgarnesi, þá til Grindavíkur og s.l. austur fyrir fjall til Jötuns og Þóris á Selfossi og að Gunnarsholti og skemman hans Viðars skoðuð á heimleiðinni.
Í félaginu eru um 250 manns, árgjaldið er 3.000 kr. og á almenna fundi koma venjulega yfir 40 manns en í vorheimsókninni hafa 70 og 80 manns skráð nöfn sín.
Sú breyting var gerð á lögum félagsins á aðalfundi 2017 að allt tengt Ferguson og Massey Ferguson var fjarlægt úr lögunum nema nafnið – Fergusonfélagið – sem er orðið þekkt í samfélaginu sem sameiningartákn eigenda og unnenda gamalla dráttarvéla.
Félagið heldur úti heimasíðu “ferguson-felagid.com“. Einnig er “Fergusonfélagið” á Facebook. Þar setja stjórnarmenn inn efni en allir geta tekið þátt í umræðum um það sem á síðunni birtist. Heimasíðan og Fergusonfélags-facebooksíðan er samtengdar því ekki eru allir á Facebook. Nýjust er svo “Fergusonfélags-grúppan” líka á Facebook. Sækja þarf um aðgang að þeirri síðu en svo geta félagar hennar sett þar inn myndir, fyrirspurnir, góð ráð eða annað það sem tengist gömlum dráttarvélum, sögu þeirra og fylgihlutum. Vonir eru bundnar við að hún verði allvirk með auknum fjölda samþykktra “fésbókara”.
Fergusonfélagið hefur látið útbúa boli, húfur og könnur með merki félagsins og hefur söluandvirðið notað til að styrkja Landbúnaðarsafnið að Hvanneyri og Samgöngusafnið að Ystafelli með peningagjöfum. Einnig hefur félagið fært Landbúnaðarsafninu muni til eignar.
Þá hefur verið góð samvinna milli Fergusonfélagsins og Landbúnarsafnsins með fundarhöldum vítt um land þar sem Bjarni Guðmundsson sem var forstöðumaður Landbú
naðarsafnsins hefur frætt fundarmenn um eitt og annað í landbúnaðarsögunni, einkum tengt gömlum dráttarvélum. Alls hafa verið haldnir 10 svona fundir.
Fergusonfélagið hefur fengið félaga til að sýna dráttarvélar sínar á Landsmóti Fornbílaklúbbsins sem haldið er á á Selfossi nokkrum sinnum, einnig á Þingborg á “Fjör í Flóa” síðustu helgi í maí. Fergusonfélagið er einn framkvæmdaaðila á “Wings and Wheels” sem haldin er síðustu helgi í ágúst á flugvellinum að Tungubökkum í Mosfellsbæ. Þar eru til sýnis gamlar flugvélar, bílar, mótorhjól og dráttarvélar og ekki bara til sýnis því þarna er flogið fram og aftur og svo er hópakstur bíla og dráttarvéla inn í Mosfellsbæ.
E.t.v. mætti kalla viðburðinn dráttarvélahátíð höfuðborgarsvæðisins.