Ný og opnari Facebook-síða og fyrirspurn um kartöfluniðursetningavél af Fergusongerð

Vorum að setja upp þessa nýju FACEBOOK síðu undir nafninu “Fergusonfélags-grúppan”.
Hún er öllum opin sem vilja tengast henni. Hver og einn getur sett inn efni, fyrirspurnir og myndir og þetta efni á að vera öllum aðgengilegt og opið til umræðu. Eldri síðan var ekki nægilega vinsamleg í því tilliti.
Við minnum líka á að lögum Fergusonfélagsins var breytt á síðasta aðalfundi svo það eina í þeim sem tengt er Ferguson og afkomendum hans er nafn félagsins.
Við teljum að það sé orðið vel þekkt í “bransanum” og allir viti að það tengist gömlum dráttarvélum svona almennt.

Á myndinni sjáum við Mf 135, DT20 frá Rússlandi (“Rússu”), Ferguson TEA 20, BMC og International vél. Þarna eru þær í sátt og samlyndi í flugskýli upp á Tungubökkum kvöldið fyrir “Wings and Wheels” sem Fergusonfélagið er aðili að.

Hvetjum ykkur til að líta við hér á “Fergusonfélags-grúppunni” og tjá ykkur um uppátækið og setja inn ykkar efni og fyrirspurnir.

Siggi Skarp er þegar byrjaður að nota hana og setti þetta inn:

Fyrir nokkrum árum var gerð upp Ferguson kartöfluupptökuvél sem nú er varðveitt á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri.


Rökréttara hefði verið að byja á að gera upp niðursetningarvél en þær virðast ekki vera margar ofanjarðar.
Þess vegna spyrjum við nú eftir slíkri vél, ef hún skildi fyrirfinnast og vera föl til uppgerðar og varðveislu.

Secured By miniOrange